Listin að kveða

Njáll Sigurðsson

Sögnin að kveða er gamalt orð í íslensku máli og hefur margs konar merkingu.  Í fyrsta lagi merkir hún að segja eða að mæla, eins og til dæmis „hann kvað svo vera“, önnur merking orðsins er að yrkja eða að búa til vísu eða kvæði og  í þriðja lagi merkir sögnin að kveða oft svo ekki verður um villst að flytja eða að fara með bundið mál á sérstakan hátt.  Sögnin að kveða er algeng í íslensku allt frá tímum elstu fornrita og oft verður varla aðgreint hvort merkingin er að yrkja eða að flytja bundið mál eins og vísu eða hvort tveggja.  Mörg dæmi um þetta eru í íslendingasögum eins og í Egils sögu og Grettis sögu, „Egill kvað vísu“ eða „Grettir kvað vísu“.  En sums staðar er merkingarmunurinn þó skýr og greinilega er átt við flutning á bundnu máli sem áður hafði verið ort.  Í Egils sögu er til dæmis sagt frá því þegar Egill Skallagrímsson hlaut líf sitt að launum fyrir það fræga kvæði Höfuðlausn.  Eftir því sem sagan hermir, var Egill heila nótt að yrkja drápuna og hafði fest svo, að hann mátti kveða um morguninn.  Síðan gekk hann fyrir Eirík konung og hóf upp kvæðið og kvað hátt og fékk þegar hljóð.

Önnur þekkt lýsing er í Ólafs sögu helga, þegar Þormóður Kolbrúnarskáld vakti lið Ólafs konungs snemma að morgni daginn sem Stiklastaðaorrusta var háð.  Þormóður kvað þá hátt mjög Bjarkamál hin fornu svo að heyrðist um allan herinn.
Þriðja frásögnin er í Eiríks sögu rauða.  Þar er frá því greint þegar seiður var framinn vestur á Grænlandi og Guðríður Þorbjarnardóttir lét til leiðast að kveða galdrakvæðið Varðlokur sem Halldís fóstra hennar hafði áður kennt henni.  Í sögunni segir: „Kvað hún þá kvæðið svo fagurt og vel að engi þóttist heyrt hafa með fegri rödd kvæði kveðið, sá er þar var hjá.

En hvernig var kveðið á Íslandi fyrr á öldum?  Það þætti okkur forvitnilegt að vita og þá ekki síður hvernig kveðskaparlistin og kvæðalögin þróuðust í aldanna rás fram til okkar tíma.  Um þetta vantar okkur heimildir alveg þangað til að farið var að skrá kvæðalög og stemmur, fyrst með nótnaletri í handritum og prentuðum bókum og síðar með hljóðritum.  Það sem einkum varð til þess að kveðskaparlistin og kvæðaflutningurinn varðveittist svo lengi í munnlegri geymd allt til okkar daga meðal alþýðunnar var einkum ein grein ljóðlistarinnar, það er að segja rímurnar.

Rímnahefðin á sér merka sögu í íslenskri menningu og merkisberar þeirrar hefðar voru skáld, hagyrðingar, kvæðamenn, handritaskrifarar, bókaútgefendur og síðast en ekki síst unnendur íslenskrar ljóðlistar um aldaraðir.

Rímurnar voru séríslensk tegund langra söguljóða, þær voru ein allra vinsælasta kveðskapargrein hér á landi allt frá 14. öld og fram undir 1900 og jafnvel fram á þessa öld.  Yrkisefnin sóttu rímnaskáld oftast í sögur.  Orðið ríma merkir rímuð frásögn eða saga sem snúið hefur verið í bundið mál.  Rímnaskáldin ortu um frækna riddara og forna kappa sem þekktir voru úr ýmsum sögum, konungasögum og Íslendingasögum en langvinsælastar voru þó riddarasögur og fornaldarsögur.  Ein elsta ríma sem vitað er um er Ólafs ríma Haraldssonar sem Einar Gilsson lögmaður orti á 14. öld.  Hún er varðveitt í Flateyjarbók, sem talin er skrifuð um 1390.

Fátt er vitað um hvernig rímur voru fluttar fyrst eftir að þær komu fram.  Þó má finna vísbendingar í gömlum rímum um að fyrrum hafi þær verið kveðnar fyrir dansi.  Um það vitnar þetta erindi úr Sörla rímum sem taldar eru meðal elstu rímna:

Því má ek varla vísu slá,
veit ek þat til sanns;
þegar at rekkar rímu fá
reyst er hún upp við dans.

Sögnin „að reysta“ er skyld orðinu raust og merkir að kveða við raust.

Um sögu rímnalaganna og skráningu þeirra verða hér aðeins nefnd örfá atriði úr annars mikilli sögu.
Elstu lög eða stemmur sem varðveist hafa við vísur með bragarháttum rímna eru í gömlum nótnahandritum frá 17. öld.  Um miðja 19. öld skráði Pétur Guðjohnsen organisti og söngkennari fáein rímnalög með nótum.  Þau voru aldrei prentuð en eru til í handriti.  Rímnalög komu fyrst út á prenti um 1890 í safni Ólafs Davíðssonar, Íslenskar skemmtanir.  Þar eru prentuð með nótum 15 rímnalög.

Söfnun íslenskra þjóðlaga, þar á meðal rímnalaga hófst í lok 19. aldar.  Lang merkasta framlag á því sviði var starf  séra Bjarna Þorsteinssonar prests og tónskálds sem lengi var á Siglufirði.  Séra Bjarni hóf þjóðlagasöfnun sína um 1880 og safn hans, Íslensk þjóðlög, kom út í Kaupmannahöfn skömmu eftir aldamót.  Síðasti kafli þjóðlagasafnsins fjallar eingöngu um rímnalögin og er þar að finna mikinn fjölda af lögum og stemmum sem séra Bjarni og aðstoðarmenn hans skráðu með nótum í lok 19. aldar og fram um aldamótin 1900.

Eins og áður var nefnt, voru rímur ætíð fluttar á þann hátt að þær voru kveðnar.  Þær voru einkum hafðar til skemmtunar á kvöldvökunni þegar fólkið sat við vinnu sína á löngum vetrarkvöldum.  Sjómenn höfðu rímnakveðskap sér til dægrastyttingar í verbúðum og oft var kveðið meðal gangnamanna í leitarmannakofum.  Flytjandinn var alltaf einn og nefndist hann kvæðamaður.  Góðir kvæðamenn höfðu af .því eins konar atvinnu að ferðast bæja á milli til að skemmta með rímnakveðskap, þáðu fyrir það gistingu og góðgerðir og voru fáir gestir jafn kærkomnir.  Meðal þekktustu landshornaflakkara og skemmtikrafta á síðustu öld voru Símon Dalaskáld og Guðmundur Árnason, þekktari sem Gvendur dúllari.

Flutningsmáti kvæðamanna var sérkennilegur, einkum beiting raddarinnar og í því sambandi stundum verið talað um eins konar millistig milli söngraddar og talraddar.  Jafnframt var kveðskaparstíllinn mjög persónubundinn og til voru landshlutabundin stílbrigði svo sem meðal kvæðamanna úr Breiðafirði.  Þeir kváðu allt öðru vísi en til dæmis Húnvetningar.  Lagið sem kvæðamaðurinn hafði við flutninginn var nefnt rímnalag, kvæðalag, stemma eða bragur og mun síðasttalda orðið bragur einkum hafa þekkst í þessari merkingu á Vesturlandi og Vestfjörðum.  Í þjóðlagasafni séra Bjarna Þorsteinssonar er fróðleg grein eftir hann um kvæðalögin en ekki eru síður fróðlegar athugasemdir sem hann fékk frá sumum aðstoðarmönnum sínum.  Sérstaklega frá Benedikt Jónssyni á Auðnum.  Með rímnalögum úr Þingeyjarsýslu skrifaði Benedikt til séra Bjarna og segir þar meðal annars:

„Þegar menn kveða, fer hver eptir sínu höfði; þá eru menn með sína eigin eign og fara með hana eins og andinn inn gefur í hvert sinn, svo að heita má að hver maður hafi sitt kvæðalag og þó ekki ætíð eins, heldur fer það eptir efni, hætti og augnabliks áhrifum.  Þessi lög er því mjög laus; en þyki einhver kveða sjerlega vel og einkennilega, þá taka ýmsir það kvæðalag upp.  Manna á milli gengur svo mikill urmull af kvæðalögum með óteljandi breytingum, að manni liggur við að sundla í því flóði.  En þrátt fyrir allt festuleysið og formleysið í kvæðalögunum eru þó til mörg kvæðalög sem ganga nær því óbreytt ef til vill um allt land….Kvæðaskapurinn er að sínu leyti eins og rímurnar; meiri hlutinn er rusl, gjörsneytt öllu fagurfræðislegu gildi, en innan um eru gullkorn, sem sjálfsagt er að hirða, því þau eru þjóðleg og einstök í sinni röð, og þess vegna dýrmæt fyrir okkur; enda óvíst hvað úr síku mætti smíða.  En – til þess að grafa þessi gullkorn úr sorpinu þarf mikla elju, innilega rækt, smekkvísi, víðsýni og hleypidómaleysi.“

Aftur skal vitna til skrifa Benedikts á Auðnum þar sem hann segir um kvæðalögin: „Mér virðist að öllum kvæðalögum megi skipta í tvo flokka, sem að vísu hafa ekki glögg takmörk, en eru talsvert ólíkir í heild sinni: 1° kvæðalög, sem fylgja vissum vísnaflokkum, svo sem hestavísum, siglingavísum, ástavísum, tækifærisvísum, skamma-og kesknivísum o.s.frv., og 2° hin eiginlegu rímnalög, sem brúkuð eru þegar kveðnar eru langar rímur og kvæðamaðurinn verður að kveða heilar kvöldvökur.
Lögin í fyrri flokknum eru breytilegri að tónskipun, þau grípa yfir stærra tónsvið, oft meira en áttund, líkjast yfir höfuð meira sönglögum eða reglulegum melodium og hafa enda sum nokkurt melodiskt gildi.  Í þeim eru tónasamböndin eða tónbilin mergurinn málsins.  Það er líka tiltölulega auðvelt að skrifa þessi lög með einföldum nótnatáknum svo þau verði skiljanleg og setja þau í vanalegt melódiskt form.  Það eru einmitt þessi kvæðalög sem ganga lítið breytt mann frá manni og máske um allt land.  Þessi lög hafa eins og kristalliserast í kvæðasúpunni og fengið fast og varanlegt form og eru þannig orðin að þjóðlögum.  Langflest lögin, sem ég skrifaði, tel ég til þessa flokks.
Kvæðalögin í hinum flokknum, hin eiginlegu rímnalög, eru miklu formlausari og óákveðnari svo naumast er hægt að handsama þau, enda eru þau flest ómelodísk og lítið annað en glymjandi eða kveðandi deklamation með löngum „lotum“.  Það væri líka ofraun fyrir kvæðamann að kveða heila kvöldvöku með lögum er grípa yfir heila áttund og þó minna væri, enda ekki áheyrilegt.  Menn hafa því gripið til þess, sem var hægra og eðlilegra, nefnil. Að viðhafa aðeins örfáa tóna (oftast stóra eða litla þríund) en bæta svo aftur fátækt tónanna upp með dynamiskum kunstum, hljómbreytingum, áherslum, slögum, trillum og öllum þeim tilbreytingum, sem raddfærin leyfa og væri kvæðamaðurinn góður kvæðamaður breytti hann stöðugt til eftir efni rímnanna, svo heita mátti að hann kvæði sína vísuna með hverju lagi.  Þannig voru rímur kveðnar hér, og ég er sannfærður um að sumir kvæðamenn hafa framið talsverða og allt annað en fyrirlitlega íþrótt með þessu.“

Skömmu eftir síðustu aldamót eignuðust menn hér á landi fyrstu tækin sem notuð voru til hljóðritunar.  Með þeim var hljóðritað á sívalninga eða hólka úr vaxkenndu efni.  Eftir að hljóðritunartækni kom til sögunnar gjörbreyttist aðstaða til söfnunar á rímnakveðskap vegna þess að með hljóðritum er ekki einungis hægt að varðveita lögin sjálf og textann, heldur einnig flutningsmáta, raddblæ og persónubundinn stíl hvers kvæðamanns.
Til eru fjögur merkileg söfn með rímnakveðskap hljóðrituðum á vaxhólka.  Elst er safn Jóns Pálssonar bankagjaldkera, föðurbróður Páls Ísólfssonar, frá árunum 1903 – 1912.  Í því er ýmislegt efni, bæði talað orð, söngur og rímnakveðskapur, þar á meðal eftirhermur eftir sérkennilegum kvæðamönnum eins og Símoni Dalaskáldi og Gvendi dúllara.  Hljóðritasafn Jóns Pálssonar er nú í Þjóðminjasafni Íslands.  Í Þjóðminjasafninu og úti í Berlín í Þýskalandi er varðveitt hljóðritasafn Jóns Leifs tónskálds, en hann safnaði þjóðlögum og rímnakveðskap á vaxhólka á árunum um og fyrir 1930.  Meðal efnis í því safni eru merkilegar hljóðritanir með tvísöngslögum og tvísöngsstemmum.  Að kveða tvísöngsstemmur mun vera síðari tíma fyrirbæri, ef til vill frá síðustu öld og hefur sennilega einkum tíðkast á mannamótum og skemmtunum til dæmis í réttum, sérstaklega norðanlands í skagafirði og í Húnavatnssýslum.
Tvö vaxhólkasöfn með rímnakveðskap eru varðveitt í Stofnun Árna Magnússonar.  Annað þeirra átti kvæðamaður af Norðurlandi, Jónbjörn Gíslason að nafni.  Jónbjörn fluttist til Vesturheims og tók með sér talsvert safn af rímnalögum sem hann hafði hljóðritað hér heima áður en hann fór.  Batt hann saman eins og klyfjar hljóðritunartækið og kassann með vaxhólkunum og bar svo á öxlum sér í bak og fyrir milli bæja í byggðum Íslendinga til þess að landar hans vestan hafs gætu hlustað á rímnalög heiman frá Íslandi.  Á gamals aldri kom Jónbjörn aftur heim til Íslands og hafði með sér rímnalagasafnið.  Þetta safn ásamt tækinu, sem notað var við að taka upp rímnalögin og hlusta á þau, er nú í eigu Stofnunar Árna Magnússonar.  Hitt kvæðalagasafnið sem þar er varðveitt á vaxhólkum er komið frá Hjálmari Lárussyni myndskera og kvæðamanni.  Hjálmar var faðir Kjartans, Margrétar og fleiri systkyna sem mikið hafa fengist við að kveða.
Um og eftir 1930 var byrjað að gefa rímnakveðskap og kvæðalög út á hljómplötum.  Þeir sem fyrstir kváðu inn á hljómplötur voru Jón Lárusson frá Hlíð á Vatnsnesi, Gísli Ólafsson frá Eiríksstöðum og Páll Stefánsson.  Páll og Gísli kváðu einnig saman í tvísöng á einni útgáfuplötu.

Haustið 1929 var í Reykjavík stofnað Kvæðamannafélagið Iðunn og allt frá upphafi hefur verið unnið að því innan félagsins að safna kvæðalögum og varðveita þau.