Meðan stakan mótast létt…

Sigmundur Benediktsson Iðunnarfélagi var að gefa út vísnabók, við skulum gefa honum orðið:

Til að vaki tungan rétt
tjáning spaka þekki.
Meðan stakan mótast létt
málið sakar ekki.

Sjaldan er ein báran stök, segir máltækið. Hækkandi aldur rekur á eftir mér að koma því í verk, sem ég hefði átt að vera búinn að fyrir löngu.  Á síðasta ári gaf ég út vísnabók 144 bls. með 333 hringhendum og dýrt kveðnum vísum, sem heitir ,,Þegar vísan verður til…” og seldist hún ágætlega, sem gaf ástæðu til að  gera betur. Fáein eintök eru þó enn til af henni.

Seinni vísnabók mín ,, Meðan stakan mótast létt…” er komin út, hún er 240 bls. að stærð og inniheldur um 870 vísur, þar af um 340 dýrt kveðnar. Þessi bók er mun fjölbreyttari en sú fyrri, með 12 vísnaköflum um mismunandi efni og svo rímuna Vorfögnuð. Í bókinni eru sýnishorn af yrkingum um hin ýmsu málefni allt frá hátíðleik- og heimspeki til kersknis- og kátínu. Einnig er þarna að finna ferðavísur, sem og stökur frá leik og starfi með Kvæðamannafélaginu Iðunni í í 20 ár. ,, Meðan stakan mótast létt…”   má segja að sé bók flestra bragarhátta og er von mín að með lestri hennar muni flestir finna eitthvað við sitt hæfi, sem á annað borð hafa gaman af vísum.

Þau sem vilja eignast bókina, geta pantað hana hjá höfundi, Sigmundi Benediktssyni Skarðsbraut 17, 300 Akranesi í síma 431 4335 og í gsm 845 9535, eða á netfanginu sigmben@simnet.is Einnig er hægt að panta hjá Heiðrúnu Jónsdóttur í síma 848 7835.

Ath. Bókin er ekki seld í búðum. Hér eru nokkur sýnishorn. Góðar kveðjur. Sigm. Ben.

Gömul spor
Eftir gengna gleði og kíf,
gistir hugann saga.
Í gömlum sporum leynist líf
löngu týndra daga.

Flott útsýni
Yfir breiðist sæinn sindur
sveipuð jörð í hélukjól,
í heiðríkjunni Háitindur
horfur reistur móti sól.

Leit í spegil
Hefur úfið hárið í
hlaupið fjandans þráinn
þetta gráa strigastrý
stendur út í bláinn.

Sléttubönd á árshátíð
Vorið fráa yndis yl
öllu smáu gefur.
Þorið háa tekið til
taumlétt þráin hefur.

Heiðrún að yrkja
Niðrá blaðið hrannast hér
hugans orðaflaumur,
hennar kringum höfuð fer
hundrað vatta straumur.

Selárdal
Abstrakt bullur inní sal
allt í hendur fengu
en Samúel í Selárdal
sótti list úr engu.

Í Hamarsfirði
Við Hamarsfjörð er hafið blátt
heimur álfa og dísa
þar sem upp í heiðið hátt
hamratindar rísa.

Á kosningavetri
Flykkjast teit á framboðsreit
flónin heit í vetur,
þung er leit í þeirri sveit
þess er veit og getur.

Þessi færsla var birt í Auglýsingar og merkt sem , . Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar