Árleysi alda – Bjarki Karlsson vinnur bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

Einn félaga okkar í Iðunni, Bjarki Karlsson vann nú nýlega Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar með ljóðahandriti sínu Árleysi alda. Sú bók er nú komin út og hvetjum við alla sem vettlinga geta valdið að kaupa þessa úrvals bók.

Í umsögn dómnefndar segir m.a. um verðlaunabókina, sem inniheldur háttbundin ljóð:

• óvenju vel heppnuð blanda af húmor, fornum bragarháttum og samfélagsádeilu
• hefur framúrskarandi vald á bragarháttunum og hefur náð að flétta það vald saman við skarpa samfélagsádeilu og slynga orðaleiki sem gefa handritinu öllu einstakt gildi og dýpt
• gefur aldrei nokkurn afslátt af þeim skáldlegu kröfum sem hann augljóslega gerir til sjálfs sín
• tekur sér stöðu eins og hirðskáld eða höfuðskáld til forna og yrkir um samtíma sinn á
fjölbreytilegan hátt
• í senn angandi af fúkka og skínandi glansandi fægt; bæði ævafornt og svo módern að það verður alvarlega póstmódern. Það þyrlar rykinu af því sem við vissum ekki að við hefðum gleymt

Á kápu segir Ragnar Ingi Aðalsteinsson formaður Iðunnar þetta um verðlaunabókina:

Árleysi alda eftir Bjarka Karlsson er fagnaðarefni. Skal þar fyrst nefna að hér er ort undir hefðbundnum bragarháttum, valdir eru hættir frá ýmsum tímum og komið víða við í bragsögunni.

En þótt hér sé skartað fornum bragarháttum, eru efnistök í bókinni æði nútímaleg. Höfundurinn hefur ákveðnar skoðanir og er óhræddur við að flíka þeim. Ljóst er að bragarhættir forfeðranna, sumir meira en ellefuhundruð ára gamlir, þjóna enn í dag prýðilega því hlutverki að tjá tilfinningar og koma skoðunum á framfæri. Til þess þarf þó leikni sem ekki er öllum gefin. Yfir henni býr Bjarki, sem getur leikið sér að hefðbundna bragnum eins og skylmingamaður sem sýnir þrjú sverð á lofti samtímis. Þegar slík kúnst fer saman við beittar skoðanir og sterka þörf til að tjá þær verður útkoman veisla fyrir lesandann.

Á síðasta félagsfundi Iðunnar mætti Bjarki og kvað fyrir okkur nýlega rímu sína Ungfrú Ísland gengur aftur.  Hann hefur veitt okkur góðfúslegt leyfi til að endurbirta hana hér:

Ungfrú Ísland gengur aftur

1. Djöfull er hún Djennífer mín Lópes
grönn og stinn og flott og fitt,
firðar inna: hólí sjitt!

2. Ítem fín er Angelína Djólí,
dúndur-magnað drullu-glæst
dæsa bragnar: hólí kræst!

3. Enn ég hæli henni Mælí Særus:
hún er frussu-flott að sjá,
fnæsa drussar: hólí ká!

4. Ljúft ég sé hvað Linda Pé og Hófí
kunna að temja búk og brjóst
bændur emja: hólí góst!

5. Ei má gleyma Unni seima Birnu
brúnaljósin lýsa heil
lýðir frjósa: hólí greil!

6. Svo var sprungin Íslands ungfrúr-keppni,
foldu lengur fannst þá á
fegurst engin hringaná.

7. Íslandsmet þó er að setja í fegurð
(sem er von og sannreynt er)
sérhver kona á landi hér!

– – –

8. Nú skal rímu að nýjum tíma snúa:
hringatróðu er hent á svið
hjarnar Fróðárselur við.

9. Fjargviðrist þó femínistar allir
hyggjast púkar koma í kring
kvenmannsbúka hlutgerving.

10. Dæma skal þar drósavalið bóndi;
þætti annað eintómt kukl
(enda kann’ann hrútaþukl).

11. Seytján vetra séu tetrin gömul,
sinaber og mittismjó;
málin veri smá um þjó.

12. Aukast líkur enn þá píku hverrar
heilli rafta hnátan mæt,
haldi kjafti og veri sæt.

13. Með silíkon er sigurvon í brjósti
eykst þá prúðum svanna séns
séu púðar ei frá Jens.

14. Höldar vansa hafa trans- af -konum,
síst má ungfrú undir spjör
ala pung og tilbehör.

15. Ei má snotran áður gotið hafa,
þar sem glatað eintak er
afturbatapíka hver.

16. Loks þeir skrokk er skástan þokka býður
utan sleppa á Ungfrú Vorld,
erlent keppa fær við hold.

17. Þegar býður þjóðar stríður sómi
gerist þetta geðveikt brýnt:
geta sléttan maga sýnt.

18. Ærir flotna alheimsdrottning mætust
fyrst að Dorrit flutti út
farga vorri þarf hún sút.

– – –

19. Það er happ ef heimsins papparassar
eftir vappa í einum hnapp
ákaft snappa: hólí krapp.

20. Ungfrú klókust kann að bóka sigur
ef sig spókar um á brók
úr ullarflóka, hólí smók.

Þessi færsla var birt í Fróðleikur og merkt sem , , . Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar