Haustferðin, myndir og stökur

Þann 7. september síðastliðinn fóru Iðunnarfélagar nokkrir í haustferð sína, sem að þessu sinni var farin í Dalina.  Nokkrar myndir voru teknar af því tilefni, auk þess sem nokkrar stökur urðu til.

Sigurður frá Vatni og Sigurður Dýralæknir í fullum herklæðum á Eiríksstöðum.

Sigurður Jökulsson frá Vatni bakaði flatbrauð til að gefa fólki smakk:

Flatt deig setti’á flatan pott,
framleiddi af natni,
bleytti’í smjöri brauðið gott
bakarinn frá Vatni.
                                Höskuldur Búi

Ragnar Ingi Aðalsteinsson fór mjúkum höndum um orgelið að Hjarðarholti.

Formaðurinn þandi orgel í kirkjunni á Hjarðarholti á meðan gnauðaði í vindinum fyrir utan.

Oft er svo þó úti rjúki,
ýmsir vilja söngva mjálma.
Formaðurinn fingramjúki,
fagurt orgel strauk í sálma.
                                   Höskuldur Búi

Við laug Guðrúnar Ósvífursdóttur að Laugum í Sælingsdal

Sigurður dýralæknir mældi hitastig laugar Guðrúnar Ósvífursdóttur að Laugum í Sælingsdal:

Vaskur maður, vís og fær
vísifingur kaldan þvær
dómur kom um þvottaþrær
37,2.
                                 Höskuldur Búi

Matarmikil kjötsúpa og kaffi að Vogi

Hann er nú að haska sér,
hefur mig í togi.
Kraftmikil og kjarngóð er
kjötsúpan í Vogi.
                                 Halldór Blöndal

Í rútuferðinni heim var óskað eftir fleiri stökum, enda voru þær fáar að þessu sinni:

Ritstíflan nú engin er,
að yrkja þykir varla kvöð;
fljótt því vil ég fá hjá þér
fleiri vísnaeyðublöð.
Höskuldur Búi

Frestur var gefinn á að skila inn vísum þar til heim væri komið, ef ske kynni að einhver þyrfti að fínpússa eitthvert meistarastykki.

Á vísum sé ég vondan skort
og víni sem oftast gagnar;
það sem menn hafa ekki ort
þeir eiga að senda á Ragnar.
Halldór Blöndal

Að lokum kom svo staka sem við öll sem tókum þátt í þessari ferð tökum undir:

Jafnan einn af öðrum ber
eftir góðan kemur bestur;
Sigurður ég þakka þér
þessa för í Dali vestur.
Halldór Blöndal

 

Þessi færsla var birt í Fróðleikur og merkt sem , . Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar