Ný bók um íslenska bragfræði

Út er komin ný bók um bragfræði, sem heitir Íslensk bragfræði og er eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson.

Í bókinni er fjallað um regluverkið sem fylgt hefur  íslenskum kveðskap frá öndverðu. Þar má nefna hrynjandina eða taktinn í braglínum, bragliði eða kveður, rímið sem skreytir braginn og síðast en ekki síst stuðlasetninguna þar sem nákvæmni regluverksins nær hámarki og framstöðuhljóð orðanna leika aðalhlutverkið. Víða um Norður-Evrópu var forðum kveðið eftir þessum bragreglum en nú er það helst í íslenskum kveðskap sem þær lifa enn góðu lífi. Hinum bragfræðilegu útskýringum fylgir mikill fjöldi dæma eftir ljóðasmiði frá öllum tímum, rösklega eitt hundrað skáld og hagyrðinga, konur og karla, ung skáld og aldin, þekkt og óþekkt. Þau eru sálin í bókinni. Án þeirra væri hún ekki til.

Vart leikur á tveimur tungum að fáar þjóðir ef nokkur hafa dýrkað brag og fjölbreytta möguleika hans sem við Íslendingar. Við það bætist að á Íslandi hefur varðveist stuðlanna þrískipta grein eftir að aðrar þjóðir glötuðu henni.
Braglist Íslendinga á sér órofa sögu allt frá öndverðu, kynslóð fram af kynslóð, sem aldrei hefur rofnað – og lifir enn góðu lífi. Það kemur því óneitanlega spánskt fyrir sjónir að bragþjóðin hefur aldrei eignast bragfræði sem stendur undir nafni – og má jafnvel telja til hneisu.
Því er ekki að leyna að bragfræði sem fræðigrein virtist um stund falla í ónáð er formbyltingin svokallaða ruddi sér til rúms, eins og dagar hennar væru þar með taldir. Svo var auðvitað ekki; hefðin lifði góðu lífi og vex nú fiskur um hrygg að nýju.
Rit Ragnars Inga Aðalsteinssonar, Íslensk bragfræði, er
brautryðjandaverk. Í fyrsta skipti eignast Íslendingar bragfræði sem tekur á öllum þáttum hennar, stórum sem smáum, gerir þeim greinargóð skil, skýrir hugtök rækilega og sýnir lýsandi dæmi. Allir þeir sem unna ljóðlist hljóta að fagna þessu nýja riti og nýta sér það. Kennarar fá nú og í hendur rit sem áreiðanlega verður þeim notadrjúgt, enda fjallar einn kafli þess beinlínis um það að leiðbeina nemendum sem fýsir að tileinka sér listina að yrkja.

Þórður Helgason

 

Þessi færsla var birt í Auglýsingar og merkt sem . Bókamerkja beinan tengil.

1 Response to Ný bók um íslenska bragfræði

  1. Ragnar Ingi er ómetanlegur og þótt ég hafi ekki séð ritið tel ég mig vita að það sé harla gott og ég ætla svo sannarlega að reyna að eignast eitt eintak af því.
    En, Hvernig getur Þórður Helgason ritað „bragfræði sem tekur á öllum þáttum hennar“? Svona fáránleg ummæli eru eingöngu til þess fallin að rýra verk Ragnars Inga.
    Það hefur engum enn tekist að rita „bragfræði sem tekur á öllum þáttum hennar“ þótt ég treysti Ragnari Inga betur en flestum til að komast nálægt því.
    Ragnar Ingi er heldur ekki fyrstur til að kynna bragfræði. Sumir hafa gert það áður ágætlega. Mér þætti því við hæfi að Þórður Helgason taki til baka ummæli sín: „bragþjóðin hefur aldrei eignast bragfræði sem stendur undir nafni“.
    En, það má svo sem vel vera að Þórður Helgason hafi aldrei séð ritin Bragur og ljóðstíll eftir Óskar Ó. Halldórsson eða Bragfræði og háttatal eftir Sveinbjörn Beinteinsson.

Skildu eftir svar