Félagsfundur og kvæðalagaæfing í febrúar

Næsti fundur Iðunnar verður haldinn föstudaginn 7. febrúar og að vanda verður kvæðalagaæfing miðvikudagskvöldið á undan, sem nú er þann 5. febrúar.

Aðalþema fundarins verður Vetur, Þorrinn og Norðurljós og er dagskrá í umsjón Rímnalaganefndar og formanns þeirrar nefndar, Rósu Jóhannesdóttur, og að vonum mikið kveðið.

Sigurður Sigurðurson kveður Mánavísur Herdísar Andrésardóttur og Þorsteinn Magni Björnsson mun kveða ýmsar Þorravísur, en einnig mun Njáll Sigurðsson kveða Vetrarvísur eftir Sigurð Breiðfjörð.  Þórarinn Már Baldursson mun flytja eigin vísur um Þorrann og Iðunn Helga Zimsen mun flytja eina vísu um Norðurljós eftir föður sinn Helga Zimsen. Nilsen-Zimsen kvartettinn nýstofnaði stígur á stokk og flytur vísur um Þorrann.

Rósa Jóhannesdóttir kveður Norðurljósavísur eftir ýmsa höfunda, og spilar máske eitt lag á Harðangursfiðlu. Ragnar Ingi Aðalsteinsson formaður Iðunnar mun síðan flytja stutt erindi um brageyrað.

Svo má nefna fasta dagskrárliði: skýrsla ritara, látinna félaga minnst, litla hagyrðingamótið, samkveðskapur en að þessu sinni verður kveðinn Matargikksbálkur Helga Zimsen og þorravísur (nr 85).  Í kaffihléi verða óvenju þjóðlegar veitingar og í lok dagskrár verður auðvitað gert að afla Skáldu.

Samsöngur verður í lokin, en þá syngjum við Þorraþrælinn og Þorrablótsvísur Bjargeyjar Arnórsdóttur „Reykhólablót“

Allir fundir og kvæðalagaæfingar félagsins hefjast stundvíslega kl 20:00 og lýkur kl 22:30. Félagar eru hvattir til að mæta á sem flesta fundi og ekki gleyma æfingunum því þar geta menn kynnst betur innviðum félagsins og sögu. Einnig eru félagar hvattir til að taka með sér gesti, bæði á fundi og æfingar, því fundir Iðunnar eru öllum opnir.

Starfsemi félagsins fer fram í Gerðubergi sjá kort á ja.is

Þessi færsla var birt undir Auglýsingar. Bókamerkja beinan tengil.

0 Responses to Félagsfundur og kvæðalagaæfing í febrúar

  1. Þórir Kjartansson sagði:

    Jákvæð eru við í janúar,
    jafnan áramótin brúar.
    kuldinn þá okkur kúgar,
    kólna fingur og hnúar.

Skildu eftir svar